Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

125. fundur

Fræðsluráð

Ár 2000, mánudaginn 9. október, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 125. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður fræðsluráðs, Hrannar Björn Arnarsson, varaformaður fræðsluráðs, Sigrún Elsa Smáradóttir, Kjartan Magnússon og Margrét Theodórsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Erna Sveinbjörnsdóttir fulltrúi skólastjóra, Elín Vigdís Ólafsdóttir og Hannes Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs, Anna Kristín Sigurðardóttir deildarstjóri kennsludeildar, Ingibjörg Hafstað og Friðbjörg Ingimarsdóttir kennsluráðgjafar á Fræðslumiðstöð og Guðmundur Þór Ásmundsson verkefnisstjóri sem ritaði fundargerð.

1. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 5. okt. sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði, 1 mál (fskj 125, 1.1).

2. Kynnt staða starfsáætlunar vegna ársins 2000 (fskj 125, 2.1). Kjartan Magnússon lagði skriflega fram eftirfarandi fyrirspurn: · Hvað er talið æskilegt að margir nemendur séu að meðaltali í hverjum almennum bekk í grunnskólum Reykjavíkur? · Hve margir nemendur eru að meðaltali í bekk á nýhöfnu skólaári? · Hve margir bekkir hafa nú fleiri en 20 nemendur í bekk?

Kynnt staða fjárhagsáætlunar vegna ársins 2000 (fskj 125, 2.2).

3. Ársskýrsla fræðslumála í Reykjavík vegna ársins 1999 lögð fram (fskj 125, 3.1).

4. Lögð fram og kynnt greinargerð um nýtingu fjár til eflingar skólastarfs skólaárið 1999 - 2000 (fskj 125, 4.1).

5. Lögð fram drög að tillögum starfshóps um málefni nýbúa að stefnu í málefnum barna með íslensku sem annað tungumál í grunnskólum Reykjavíkur (fskj 125, 5.1). Anna Kristín Sigurðardóttir kynnti drögin og forsendur þeirra (fskj 125, 5.2). Meirihluti fræðsluráðs lagði fram eftirfarandi bókun: Fræðsluráð samþykkir að senda meðfylgjandi drög að stefnu um málefni barna með íslensku sem annað tungumál í grunnskólum Reykjavíkur til samstarfsnefndar Reykjavíkurborgar um málefni nýbúa. Eins og drögin bera með sér er kennsla barna með annað móðurmál en íslensku sífellt umfangsmeira verkefni í grunnskólum Reykjavíkur og kallar það á aukið fjármagn og breytt vinnubrögð. Fræðsluráð leggur áherslu á að a.m.k. ein móttökudeild fyrir nýbúa starfi í hverju þjónustuhverfi grunnskóla. Jafnframt er því beint til skólanna að í daglegu skólastarfi verði tekið mið af þeirri staðreynd að nemendur hafa ólíkan menningarlegan bakgrunn. Fræðsluráð hvetur Fræðslumiðstöð til að hafa samband við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og Menntamálaráðuneytið um þessa miklu fjölgun nemenda af erlendum uppruna.

6. Skipan nefndar fræðsluráðs um sérkennslu. Fræðsluráð samþykkir að skipa 3ja manna vinnuhóp úr fræðsluráði sem móti tillögur um sérkennslu og sérúrræði í Reykjavík í framhaldi af niðurstöðum könnunar sem lagðar voru fyrir á síðasta fundi fræðsluráðs. Hópurinn hafi samráð við starfsmenn Fræðslumiðstöðvar, starfsmenn skóla og aðra hagsmunaaðila. Meirihluti fræðsluráðs tilnefnir Sigrúnu Magnúsdóttur og Sigrúnu Elsu Smáradóttur í vinnuhópinn. Minnihluti mun skila sinni tillögu til ritara í vikunni.

7. Lagt var fram svar við fyrirspurn fulltrúa Samfoks á fundi fræðsluráðs 18. sept s.l. þar sem spurt var um meðferð tillögu um móðurskóla í foreldrasamstarfi sem lögð var fram 18. okt. 1999 í fræðsluráði. Spurt var: a) Hvaða afgreiðslu fékk þessi tillaga í fræðsluráði? Tillögunni var á fundinum 18. okt. 1999 vísað til afgreiðslu starfsáætlunar. Í starfsáætlun fyrir árið 2000 segir (bls 35): „Veittur verði styrkur úr Þróunarsjóði grunnskóla Reykjavíkur til móðurskóla í foreldrasamstarfi.” Úthlutun úr Þróunarsjóði grunnskóla Reykjavíkur fór fram 8. maí s.l. Þá fengu Engjaskóli og Breiðholtsskóli styrki til þessa verkefnis. b) Hefur tillagan og greinargerðin verið kynnt móðurskólum í foreldrasamstarfi? Fyrsti fundur Fræðslumiðstöðvar og móðurskólanna verður haldinn á næstunni. Þar var ætlunin m.a. að kynna móðurskólum í foreldrasamstarfi tillöguna og greinargerðina, ásamt öðru sem snertir hlutverk móðurskóla. Fræðsluráð leggur áherslu á sjálfstæði skóla til að móta hugmyndir sínar varðandi móðurskólana almennt.

Fundi slitið kl. 14.10

Sigrún Magnúsdóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Kjartan Magnússon
Hrannar Björn Arnarsson Margrét Theodórsdóttir