Hverfisráð Kjalarness - Fundur nr. 108

Hverfisráð Kjalarness

Ár 2013, fimmtudaginn 15. ágúst var haldinn 108. fundur hverfisráðs Kjalarness. Fundurinn hófst kl. 17:05 og var haldinn í Fólkvangi á Kjalarnesi. Viðstödd voru Sigríður Pétursdóttir, formaður, Eldey Huld Jónsdóttir, Aniko Kolcsar, Sveinbjörn Grétarsson og Hafsteinn Númason. Auk þeirra sátu fundinn Margrét Richter, rekstrarstjóri í Miðgarði, og Hera Hallbera Björnsdóttir, frístundaráðgjafi í Miðgarði, sem jafnframt ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Tekið fyrir erindi frá Gámaþjónustunni um starfsleyfi. Erindinu var vísað til meðferðar heilbrigðiseftirlitsins og til umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs auk hverfisráða.
Bókun hverfisráðs:
Hverfisráð Kjalarness vinnur að stefnumörkun undir heitinu Grænt Kjalarnes. Meðal annars er stefnt að því að lífrænn úrgangur sé jarðgerður og nýttur eins mikið og hægt er innan svæðisins. Í því skyni var kynning í vor á jarðgerðartunnum fyrir heimili og tók Reykjavíkurborg þátt í niðurgreiðslu þeirra til Kjalnesinga. Þetta er sú leið sem hverfisráð Kjalarness telur æskilegasta. Hverfisráðið setur sig þó ekki upp á móti því að Gámaþjónustunni verði veitt starfsleyfi og þjónusti þá íbúa sem það kjósa.

2. Farið yfir vetrarstarf hverfisráðs. Ákveðið að fastir fundir ráðsins verði annan fimmtudag í mánuði kl. 17:00 í Fólkvangi á Kjalarnesi. Í upphafi hausts verður lögð áhersla á að auka samskipti við íbúa Kjalarness í gegnum internetið.

Hafsteinn kom á fund kl. 17:45.

3. Rætt um Strætó. Rætt um fyrirkomulag í Mosfellsdal þar sem hægt er að panta ferðir, sem leigubílar sinna, með sólarhringsfyrirvara, ferðir sem eru festar í leiðakerfi Strætó bs. á klst. fresti yfir daginn.
Bókun hverfisráðs:
Hverfisráð fer fram á það við Strætó bs. að ferðir verði á klst. fresti frá kl. 12:00 til kl. 20:00 milli Kjalarness og Mosfellsbæjar alla virka daga. Þegar ekki eru ferðir almenningsvagna er nauðsynlegt að hægt sé að panta leigubíla, samanber fyrirkomulag fyrir íbúa í Mosfellsdal. Þessar ferðir eru mjög mikilvægar fyrir börn og unglinga á svæðinu til að geta tekið þátt í frístundastarfi utan svæðis. Eins og skipulag ferða strætó um Kjalarnes er í dag er einungis um að ræða 2-3 viðbótar ferðir á dag í hvora átt.

4. Farið yfir hverfapotta. 4 verkefni hlutu kosningu. Framkvæmdir við tvö verkefnanna, sem eru á ábyrgð Áhaldahúss, fara af stað eftir 1. september næstkomandi. Það eru verkefnin: Aðstaða fyrir jólatré í miðju hverfis og Gróðursetning í nágrenni Vallárlækjar. Sundlaugaframkvæmdir við Klébergslaug eru í hönnun upp á öryggi og útlit. Erindið fer svo til bygginganefndar og þaðan í hefðbundið ferli, t.d. grenndarkynningu. Rennibraut, sem kosin var árið 2012 en ekki komst til framkvæmda þá, er búið að setja upp og komin í notkun.

5. Fjallað um Grænt Kjalarnes. Sigríður sagði frá hver staðan er á verkefninu. Búið að boða stýrihópinn á fund 8. september næstkomandi. Aðalfundur verkefnisins verður laugardaginn 21. september milli kl. 10:00 – 12:30.

6. Rætt um Barnalund. Verið er að vinna að útfærslu. Stefnt er að því að hefja gróðursetningu haustið 2013.

7. Tekin fyrir mál frá Íbúasamtökum Kjalarness:
a. Þróun hverfisins og mikil fækkun nemenda í Klébergsskóla undanfarin ár og þeirri spurningu varpað fram hvort það tengist skorti á framboði á hentugu leiguhúsnæði fyrir fjölskyldur. Velt upp þeirri hugmynd hvort taka megi upp viðræður við Íbúðalánasjóð varðandi þær íbúðir sem þeir eiga í Grundarhverfi.
Erindið lagt fram og hverfisráð lýsir sig reiðubúið til viðræðna við íbúasamtökin. Málið tekið fyrir á næsta fundi ráðsins. Óskað er eftir því að stjórn íbúasamtaka Kjalarness mæti á þann fund.
b. Fjallað um dóm sem féll í máli Skotreynar gegn Íbúasamtökum Kjalarness og íbúa á Skriðu. Óskað eftir styrki frá hverfisráði til að standa straum af kostnaði vegna varnar stefndu.
Hverfisráð Kjalarness harmar þá stöðu sem upp er komin vegna skotvallar á Álfsnesi en styrkumsókn vísað frá þar sem hún fellur ekki að úthlutunarreglum styrkja hverfisráðs.
c. Í næstu útgáfu á Kjalnesingi verður gerð skoðanakönnun um m.a. ferðir Strætó, hraðahindranir, göngustíga o.fl.. Hverfisráði boðið að leggja fyrir spurningar gegn vægu gjaldi.
Hverfisráð Kjalarness þakkar boð íbúasamtakanna en afþakkar þátttöku að þessu sinni.
d. Auglýsing á viðtalstímum hverfisráðs. Hverfisráði Kjalarness býðst eins og áður að auglýsa viðtalstímana í gegnum Kjalnesing og www.kjarlarnes.is á svipaðan hátt og verið hefur.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um viðtalstíma hverfisráðs. Málinu frestað til næsta fundar.

8. Vakin athygli á tillögu á nýju aðalskipulagi Reykjavíkur. Hægt að nálgast kynningargögn á www.adalskipulag.is og www.skipbygg.is.

9. Lagður fram kynningarbæklingur frá Skátasambandi Íslands í tilefni af 100 ára afmæli sambandsins.

Fundi slitið kl. 18.35

Sigríður Pétursdóttir, formaður
Eldey Huld Jónsdóttir Sveinbjörn Grétarsson
Aniko Kolsak Hafsteinn Númason