Umhverfis- og skipulagsráð - og skipulagsráð

Umhverfis- og skipulagsráð

Umhverfis- og samgönguráð

Ár 2010, þriðjudaginn 12. janúar kl. 14.00 var haldinn 42. fundur umhverfis- og samgönguráðs í Hofi að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Gísli Marteinn Baldursson, Kolfinna Jóhannesdóttir, Gerður Hauksdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Dofri Hermannsson, Friðrik Dagur Arnarson og Dagný Ósk Aradóttir Pind. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon. Enn fremur sátu fundinn Ólafur Bjarnason, Stefán Agnar Finnsson, Kolbrún Jónatansdóttir, Eygerður Margrétardóttir, Gunnar Hersveinn, Ellý K. Guðmundsdóttir og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:

1. Nýr fulltrúi í Umhverfis- og samgönguráði.
agt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 6. janúar 2010. Formaður bauð Kolfinnu Jóhannesdóttir velkomna til starfa.

2. Kosning varaformanns.
Kolfinna Jóhannesdóttir var einróma kjörin varaformaður ráðsins.

3. Siðareglur fyrir kjörna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg.
Lagt fram á ný bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 21. október 2009 ásamt eintaki til undirritunar kjörinna fulltrúa. Fimm kjörnir fulltrúar undirrituðu siðareglurnar.
Ólafur F. Magnússon lagði fram svohljóðandi bókun:
Ég tek ekki þátt í þeirri sýndarmennsku, sem felst í því að kjörnir fulltrúar í borgarstjórn og fagráðum Reykjavíkurborgar undirriti „siðareglur“. Þar til nýlega hefur það verið óupplýst að kjörnir fulltrúar hafa beitt sér í málum þar sem þeir eru fullkomlega vanhæfir, þar sem þeir hafa þegið háar fjárhæðir frá hagsmunaðilum í umdeildum málum. Framganga núverandi borgarstjóra í málefnum Listaháskóla við Laugaveg sumarið 2008 er t.d. gróft dæmi um að gengið sé hart fram í þágu styrktaraðila og pólitískra félaga. Tengsl borgarstjórans við Landsbankamennina, Kjartan Gunnarsson og Björgólfsfeðga taka þó út yfir allan þjófabálk.

4. Bætt umferðaröryggi í Laugarneshverfi.
Á fundinn komu Hildur Arna Gunnarsdóttir, Sveinbjörn Hilmarsson, Halldór Gunnarsson og Jón Guðmundsson, fulltrúar foreldra í Laugarneshverfi. Umhverfis- og samgöngusviði falið að koma á fundi með hópnum, fara yfir „Vegvísinn“ og leggja niðurstöður fyrir næsta fund ráðsins.
Ólafur F. Magnússon lagði fram svohljóðandi bókun:
Ég þakka ábendingar íbúa í Laugarneshverfi varðandi umferðarmál, enda eru orð þeirra eins og úr mínu hjarta töluð. Kröfunni um að þau börn, sem á annað borð þurfa að fara yfir umferðargötur á leið í skóla, búi við það lágmarksöryggi, að umferðarhraða sé kyrfilega haldið undir 30 km markinu, verður haldið til haga af minni hálfu, eins og tvo liðna áratugi.

5. Umferðaröryggisáætlun – Úttekt og aðgerðaráætlun.
Lagt fram minnisblað Umhverfis- og samgöngusviðs, desember 2009.
Ráðið gerði ekki athugasemdir við minnisblaðið.

6. Framtíðarflokkun heimilisúrgangs á höfuðborgarsvæðinu.
Kynnt framtíðarsýn Sorpu.
Frestað.

7. Hjólreiðaáætlun.
Lögð fram drög að tillögu að hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík.
Áætlunin var samþykkt einróma og henni vísað til borgarstjórnar.
Umhverfis- og samgönguráð bókaði svohljóðandi:
Umhverfis- og samgönguráð fagnar því að Hjólaáætlun Reykjavíkur sé loks samþykkt í ráðinu. Áætlunin er metnaðarfull og framsýn og mun vonandi gegna stóru hlutverki í framtíðaruppbyggingu borgarinnar. Ráðið þakkar Pálma Frey Randverssyni, starfsmanni Umhverfis- og samgöngusviðs, hans miklu vinnu við undirbúning stefnunnar, sem og öðrum starfsmönnum sviðsins, sem komu að vinnunni.

8. Loftslagsráð Reykjavíkur – tillaga.
Lögð fram á nýju svohljóðandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna:
Fulltrúi Vinstri grænna í umhverfis- og samgönguráði leggur til að umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar verði falið að hefja nú þegar vinnu við að koma á fót Loftslagsráði Reykjavíkur. Ráðið verði þverpólitískur starfshópur stjórnmálamanna og embættismanna í Reykjavík og hlutverk þess verði að meta og endurskoða allar áætlanir borgarinnar í skipulags-, samgöngu- og umhverfismálum í samræmi við niðurstöður vísindamanna um loftslagsbreytingar af völdum manna. Loftslagsráðið beri einnig ábyrgð á því að Loftslags- og loftgæðastefnu Reykjavíkurborgar sé framfylgt.
Tillögunni fylgdi greinargerð.
Formaður lagði fram svohljóðandi frávísunartillögu:
Umhverfis- og samgönguráð fer samkvæmt samþykktum borgarinnar með stefnumótun og áætlanagerð í umhverfismálum Reykjavíkur. Á Umhverfis- og samgöngusviði starfar hópur sérfræðinga við mótun, gerð og framkvæmd tillagna og stefnumótunar í umhverfismálum. Á sviðinu var unnin m.a. tillaga að Loftslags- og loftgæðastefnu þeirri, sem getið er um í tillögunni. Með vísun til framangreinds og þess að óþarfi er að flækja um of stjórnsýslu borgarinnar í umhverfismálum er lagt til að tillögunni verði vísað frá.
Fulltrúi Vinstri grænna dró tillögu sína til baka og formaður dró frávísunartillöguna til baka. Formaður lagði fram svohljóðandi bókun:
Umhverfis- og samgönguráð felur umhverfis- og samgöngusviði að leggja fram tillögu á næsta fund ráðsins um hvernig megi styrkja innleiðingu loftlags- og loftgæðastefnu borgarinnar, sem og annarrar stefnumótunar á sviði umhverfismála.#GL

9. Fundargerðir.
a. Lögð fram til kynningar fundargerð 268. fundar stjórnar Sorpu bs.
b. Lögð fram til kynningar fundargerð 128. og 129. fundar stjórnar Strætó bs.
c. Lögð fram fundargerð stjórnar Reykjanesfólkvangs frá 17. desember s.l.

10. Samræmt lyklakerfi á sorpgeymslum í Reykjavík.
Lagt fram minnisblað Umhverfis- og samgöngusviðs dags. 6. janúar 2010.
Ráðið gerði ekki athugasemdir við minnisblaðið.

11. Umhverfisvottun Íslands.
Lagt fram bréf Náttúrstofu Vesturlands dags. 14. desember 2009 og orðsending skrifstofu borgarstjóra dags. 23. desember 2009.
Frestað.

12. Fylkisvegur 6, íþróttasvæði Fylkis, deiliskipulag, grasæfingasvæði.
Lagt fram bréf Skipulags- og byggingasviðs dags. 10. desember 2009.
Frestað.

13. Niðurstöður stýrihóps um orkustöðvar í Reykjavík.
Lagt fram til kynningar bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 11, desember 2009.

14. Veraldarvinir – Hverfisgata í fóstur.
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra dags.
Lögð fram umsögn Umhverfis- og samgöngusviðs dags. 11. janúar 2010.
Ráðið gerði ekki athugasemdir við umsögnina.

15. Tillaga – lokun Lækjargötu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi tillögu:
Umhverfisráð samþykkir að fela samgöngustjóra að leita leiða til að hægt verði að loka Lækjargötu frá Hverfisgötu að Geirsgötu á dögum þegar færi og veður er til sleðaferða á Arnarhóli.“ Tillögunni fylgdi greinargerð.
Frestað.

16. Athugasemd við fundargerð 40. fundar ráðsins.
Fulltrúi Samfylkingar gerir þá athugasemd við fundargerð 40. fundar ráðsins, að þess er ekki getið, að Samfylkingin lagði fram tillögu um græna samgöngustefnu, sem samþykkt var einróma í ráðinu. Tillagan er svohljóðandi: „Tillaga um græna samgöngustefnu í hverfum borgarinnar. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í USR leggja til að í ljósi góðs árangurs af grænni samgöngustefnu Grafarvogs hafi Umhverfis- og samgöngusvið frumkvæði að því að bjóða hverfisráðum allra hverfa borgarinnar aðstoð við mótun grænnar samgöngustefnu. Samgöngustefna hvers hverfis verði unnin í nánu samstarfi við íbúasamtök, frístundaaðila, Strætó bs, skóla og foreldrafélög hvers hverfis. Í samgöngustefnu hverfanna verði hvatt til vistvænna samgangna innan hverfis með það að markmiði að börn og fullorðnir geti auðveldlega komist á milli staða í hverfinu án þess að þurfa nota bíl. Sérstök áhersla verði lögð á að eyða þörfinni fyrir skutl foreldra með börn til og frá frístundastarfi.“
Tillögunni fylgdi greinargerð.

Fundi slitið kl. 15.55

Gísli Marteinn Baldursson
Kolfinna Jóhannesdóttir Gerður Hauksdóttir Áslaug Friðriksdóttir Dofri Hermannsson
Friðrik Dagur Arnarson Dagný Ósk Aradóttir Pind.