Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

Ár 2013, mánudaginn 11. febrúar var haldinn 182. fundur menningar- og ferðamálaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 13.30. Viðstaddir: Einar Örn Benediktsson formaður, Margrét Kristín Blöndal, Ósk Vilhjálmsdóttir, Eva Baldursdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir og Davíð Stefánsson. Áheyrnarfulltrúar BÍL: Kolbrún Halldórsdóttir og Ásmundur Ásmundsson. Áheyrnarfulltrúi SAF: Þórir Garðarsson. Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir og Auður Halldórsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:
1. Lögð fram samantekt um tillögur af starfsdegi ráðsins 2012 að aðgerðaráætlun fyrir menningarstefnu. Lagt til að haldinn verði opinn fundur um endurskoðun menningarstefnu á næstu vikum og að forstöðumaður Höfuðborgarstofu verði boðaður á fund ráðsins til að kynna fyrirhugaða vinnu við endurskoðun og vörumerki fyrir ferðamannaborgina Reykjavík. Samþykkt.

2. Rætt um fjárhagsáætlun 2014 og fimm ára áætlun. Samþykkt að halda starfsdag ráðs 18. febrúar nk. og hefja vinnu við áætlanagerð. (RMF13020004)

3. Lögð fram til kynningar drög að Húsakönnun um Vatnsmýri frá 10. desember 2012 ásamt minnisblaði borgarminjarvarðar dags. 6. febrúar 2013 um deiliskipulag í Nauthólsvík. Guðný Gerður Gunnarsdóttir borgarminjarvörður kom á fundinn og kynnti. (RMF10060005)

Menningar- og ferðamálaráð óskaði bókað:
Menningar- og ferðamálaráð fellst á að notkun bygginganna og bragga við Nauthólsvík verði breytt þannig að ákvæði í deiliskipulagi um að þar verði stríðsminjasafn falli niður.
Tekið er undir tillögu sem kemur fram í húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur í Vatnsmýri um að gamli flugturninn, sem er friðaður, og braggi og flugskýli við hann henti betur fyrir safn eða sýningu um hernámsárin.
Menningar- og ferðamálaráð fagnar því að eignasjóður hafi í hyggju að varðveita byggingarnar í Nauthólsvík og fer fram á að samráð verði haft við borgarminjavörð um endurbyggingu þeirra og notkun.
- Marta Guðjónsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokks situr hjá.

- Kl. 14.33 vék Davíð Stefánsson af fundi.
- Kl. 14.33 kom Þór Steinarsson á fundinn.

4. Lögð fram til umsagnar skýrsla starfshóps um sundlaugarnar í Reykjavík –framtíðarsýn til 20 ára. (RF13020003)
Fulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins óskaðu bókað:
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lýsa yfir ánægju með skýrslu sundlaugarhópsins í Reykjavík og þakka starfsmanni sviðsins fyrir sitt framlag, sér í lagi í tengslum við kafla í tengslum við ferðamenn í borginni.
Í skýrslunni er lögð áhersla á að menningarvæða laugarnar í Reykjavík, lagðar til nýjar leiðir í jaðarþjónustu með auknum samlegðaráhrifum við menningu og leggur ráðið áherslu á að Reykjavík beiti sér í auknum mæli fyrir að sundlaugarferðin verði með fjölbreyttara sniði en nú er, sem til að mynda nýafstaðin Sundlauganótt á Vetrarhátíð er til marks um.
Þá er mikil áhersla lögð á að mæta þörfum hins almenna borgara og ferðamanna í Reykjavík og fjölga heimsóknum þeirra í laugarnar m.a. með virku markaðs- og kynningarátaki, enda mikið lýðheilsugildi fólgið í laugunum okkar.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins leggja einnig áherslu á að opnunartími lauganna verði lengdur, sér í lagi um helgar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu skýrslunnar þar sem ýmislegt kemur þar fram sem ekki er hægt að fallast á og þarfnast frekari skoðunar en í því sambandi má sérstaklega nefna fjárfestingaráætlun sem gerir ráð fyrir nýframkvæmdum sem hefði verið eðlilegra að forgangsraða með öðrum hætti. Það vekur t.d. mikla furðu að hefja eigi framkvæmdir við Sundhöll Reykjavíkur á þessu ári á sama tíma og ekki er gert ráð fyrir nema kennslulaug í Grafarholti og Úlfarsárdal og að ekki eigi að fara í endurbætur á laugarkeri í Laugardalslaug fyrr en árið 2016 en eins og margsinnis hefur verið bent á er nauðsynlegt að fara í úrbætur þar sem fyrst öryggisins vegna.

Þrátt fyrir að ýmislegt gott sé í skýrslunni er annað sem ekki hefur verið kannað nógu vel svo sem afstaða íbúa til framkvæmdanna. Til viðbótar vilja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna ítreka að lögð verði áhersla á að lengja opnunartíma í stað þess að lagt verði í einstaka kostnaðarsamar framkvæmdir.
Áheyrnarfulltrúi SAF óskaði bókað:
Fulltrúi Saf fagnar athygli á að nýta sundlaugarnar í Reykjavík til að auka afþreyingarmöguleika fyrir ferðamenn og vill í því sambandi benda á nauðsyn þess að lengja opnunartíma lauganna á kvöldin, sérstaklega um helgar og vill sér í lagi benda á góða reynslu kvöldopnunnar á nýliðinni Vetrarhátíð.
5. Lagt fram bréf borgarráðs dags. 25 janúar 2013 varðandi ósk CCP hf. að Reykjavíkurborg þiggi að gjöf útilistaverk eftir Sigurð Guðmundsson. Einnig lagt fram bréf CCP hf. dags. 21. janúar 2013 um sama efni. (RMF13010037)
Sviðstjóra falið að óska eftir frekari upplýsingum frá CCP hf. um fyrirhugað listaverk svo hægt sé að vísa málinu áfram til umsagnar Listasafns Reykjavíkur

- Kl. 15.11 vék Einar Örn Benediktsson af fundi. Margrét Kristín Blöndal tók við fundarstjórn.

6. Lagðar fram 20 umsóknir um skyndistyrki ráðsins.
Jafnframt voru lögð fram erindi Lúðrasveitarinnar Svans, Lúðrasveitar verkalýðsins og Lúðrasveitar Reykjavíkur, og Kárahnjúka ehf. vegna tónlistarhátíðarinnar Sónar Reykjavík og verða þau erindi tekin til afgreiðslu með öðrum styrkjum. (RMF13010035)
- Kl. 15.18 vék Eva Baldursdóttir af fundi.

- K. 15.23 tók Einar aftur sæti á fundi.

- Kl. 15.25 vék Kolbrún Halldórsdóttir af fundi.

7. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum menning og listir dags. 31. október 2012 um merkingar útilistaverka. (RMF13010001)
Afgreiðsla menningar- og ferðamálaráðs:

Gert var mikið átak í merkingum listaverka fyrir tveimur árum og bronsplattar settir upp við þrjátíu útilistaverk. Síðan hefur sjö bronsplöttum verið bætt við en enn vantar nokkrar merkingar. Til stendur að halda þessari vinnu áfram næsta sumar og taka þá fyrir verkin við golfvöllinn í Grafarvogi. Hver platti kostar kr. 35. þús. í framleiðslu og uppsetning u.þ.b. kr. 10. þús.

8. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum menning og listir dags. 30. nóvember 2012 um að koma á fót Jólamarkaði á Austurvelli í boði Reykjavíkurborgar. (RMF13010001)
Afgreiðsla menningar- og ferðamálaráðs:

Menningar- og ferðamálaráð fagnar þeim mikla áhuga sem birtist á vefnum Betri Reykjavík á að gæða miðborgina lífi. Í desember 2011 hrinti Reykjavíkurborg af stað verkefninu Jólaborgin Reykjavík í samræmi við Ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar 2011-2020 með það að markmiði að fjölga gestum og auka verslun á aðventunni. Jólamarkaður Miðborgarinnar okkar hefur verið haldinn á Ingólfstorgi sl. tvö ár og þykir hann hafa heppnast vel.
Haldið verður áfram að þróa verkefnið á næstu árum og verða þær hugmyndir sem hér koma fram gott innlegg í þá vinnu.

9. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum menning og listir dags. 30. nóvember 2012 um að gera gosbrunna og vatnslistaverk í borginni. (RMF13010001)
Afgreiðsla menningar- og ferðamálaráðs:

Þetta er góð ábending og verður hún send áfram til Umhverfis- og skipulagssviðs til að hafa í huga við hönnun torga og garða í borginni. Jafnframt verði haft samráð við Menningar- og ferðamálasvið sbr. áherslur í menningarstefnu Reykjavíkurborgar á að listamenn hafi aðkomu að mótun mannvirkja á vegum borgarinnar og að stuðlað sé með ýmsum hætti að listsköpun í opinberu rými.

10. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum ferðamál dags. 30. nóvember 2012 um að setja víkinga- og sögusafn í Arnarhól – undir Ingólf Arnarson. (RMF13010001)
Afgreiðsla menningar- og ferðamálaráðs:

Reykjavíkurborg starfrækir nú þegar safn eða sýningu sem sinnir þessum hluta sögu borgarinnar, það er Landnámssýningin Reykjavík 871±2 í Aðalstræti – hjarta gömlu Reykjavíkur. Landnámssýningin er hluti af Minjasafni Reykjavíkur. Miðja sýningarinnar er skálarúst frá landnámsöld hér á Íslandi, sem fellur innan þess tíma sem jafnframt er skilgreindur sem víkingaöld í Evrópu.
Arnarhóll er merkur minjastaður sem hefur í gegnum aldirnar verið einn af miðpunktum Reykjavíkur. Komi að framkvæmdum á eða við hólinn, kallar það á ítarlegar fornleifarannsóknir. Sunnan í hólnum liggur fyrsta þjóðleiðin til Reykjavíkur, Arnarhólstraðirnar. Af þykkum mannvistarlögum, sem er að finna á stórum hluta hólsins, má draga þá ályktun að þar hafi verið búið fljótlega eftir að Ísland byggðist. Elstu jarðlög sem gefa til kynna byggð á hólnum eru eldri en gjóska sem féll 1226. Hóllin sjálfur er að miklu leiti jökulruðningur sem ísaldar jökullin skildi eftir, manvistarlög eru misþykk, en á háhólnum við, styttu Ingólfs, er bæjarstæðið. Það var rannsakað að hluta árin 1992 og 1993 vegna endurnýjunar á hólnum. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar var að Arnarhólsbýlið stóð á austurhlutahólsins og snéri það norður/suður. Sennilega hefur verið gengið inn í bæinn vestan megin, frá þeirri hlið er snýr að miðbænum. Rannsóknin sýndi að verulega stórum hluta býlisins hafði verið mokað burtu á árunum 1920-24. Aldur á þeim hluta býlisins sem var rannsakaður var frá tímabilinu 1770-1830, eða yngstu bæjarhúsin, en bærinn var rifinn 1829. Ekki voru rústirnar fullkannaðar, en alls fundust þar um 2093 gripir. Sannað er að eldri leifar hvíla neðar.
Menningamerkingar eru á hólnum, sem merkja tröðina, það er hella í sverðinum. Þá eru tvö skilti sem snúa að Seðlabanka er segja frá landnámstíma. Í hugmyndum um menningamerkingar stóð til að setja eitt skilti við Lækjagötu sem segði frá byggðinni á hólnum.

11. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum menning- og listir dags. 31. desember 2012 um kaffihús á hjólum. (RMF13010001)
Afgreiðsla menningar- og ferðamálaráðs:

Reykjavíkurborg hefur hingað til ekki staðið í veitingarekstri. Aðili sem hefur áhuga á að reisa og reka slíkt kaffihús getur sótt um götu- og torgsöluleyfi.
Á heimasíðu Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur er að finna allar upplýsingar sem tengjast götu- og torgsölu (www.reykjavik.is/gotuogtorgsala). Götu- og torgsala á við um hvers kyns sölustarfsemi sem fer fram utanhúss og á almannafæri, s.s. á torgum, götum, gangstéttum og í almenningsgörðum. Götu- og torgsala er leyfisskyld og eru leyfi gefin út til ákveðins tíma.
Á heimasíðunni um götu- og torgsölu er hægt að nálgast allar nánari upplýsingar s.s. samþykktina og þar til gerð umsóknareyðublað ásamt ýmsum gagnlegum upplýsingum.

12. Menningar- og ferðamálaráð vill þakka starfsmönnum, verkefnisstjórn og öllum samstarfsaðilum Vetrarhátíðar í Reykjavík fyrir frábært og óeigingjarnt starf við framkvæmd Vetrarhátíðarinnar um síðustu helgi. Hátíðin tókst með ágætum.

Fundi slitið kl. 15.36

Einar Örn Benediktsson
Ósk Vilhjálmsdóttir Margrét Kristín Blöndal
Marta Guðjónsdóttir Áslaug Friðriksdóttir