Rimaskólastúlkur öflugar á Íslandsmóti í skák

Skóli og frístund

""

Íslandsmót grunnskólasveita í skák í stúlknaflokki var haldið í Rimaskóla um helgina og tóku 9 skáksveitir þátt í mótinu. Átta stúlkur frá Rimaskóla mættu með tvær öflugar skáksveitir lentu þær í 1. og 3. sæti.

Að þessu sinni vann A - sveitn Íslandsmótið með fáheyrðum yfirburðum, 32 - 0. Í skáksveitinni eru þær Nansý Davíðsdóttir 11 ára, Svandís Rós Ríkharðsdóttir 12 ára, Ásdís Birna Þórarinsdóttir 10 ára og Tinna Sif Aðalsteinsdóttir 10 ára.

Í 2. sæti á Íslandsmótinu varð sveit Salaskóla í Kópavogi með 25,5 vinninga og B - sveit Rimaskóla hlaut 3. sætið eins og áður sagði með 23 vinninga.

Þetta er þriðja árið í röð sem Rimaskóli sigrar á Íslandsmóti stúlknasveita og í níunda skipti á síðustu 11 árum. Rimaskóli hefur náð athyglisverðum árangri í skák á sl. áratug og lagt áherslu á jöfn tækifæri drengja og stúlkna með einstökum árangri.