Innköllun á fylltri kalkúnabringu vegna merkinga

Fréttatilkynning frá matvælaeftirliti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur

Efni:  Innköllun af markaði á Jóa Fel fylltri kalkúnabringu frá Ísfugli (vörumerki Hvíti kalkúninn) vegna ómerkts ofnæmis- og óþolsvalds (glúten).

Matvælaeftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hefur fengið tilkynningu frá Matvælastofnun um innköllun af markaði á fylltri kalkúnabringu vegna ómerkts ofnæmis- og óþolsvalds.

Eftirfarandi upplýsingar auðkenna vöruna sem innköllunin einskorðast við:

Vörumerki:  Hvíti kalkúninn.
Vöruheiti:  Jói Fel fyllt bringa.
Strikanúmer: 2312029008942.
Nettóþyngd:  0,894 kg.
Framleiðandi:  Ísfugl, Reykjavegi 36, 270 Mosfellsbæ.
Geymsluskilyrði:  Frystivara.
Dreifing:  Verslanir Hagkaupa í Reykjavík, á Seltjarnarnesi, í Kópavogi, Garðabæ og á Akureyri.

Í innihaldslýsingu kemur fram að varan innihaldi brauð án þess að innihald þess sé tilgreint.  Brauðið inniheldur afurð úr korni sem inniheldur glúten.  Korn sem inniheldur glúten og afurðir úr því eru á lista yfir ofnæmis- og óþolsvalda.   Samkvæmt matvælalöggjöfinni eiga ofnæmis- og óþolsvaldar að vera skýrt merktir í merkingum matvæla. 

Tekið skal fram að varan er skaðlaus fyrir þá sem ekki eru viðkvæmir fyrir glúteni.  Þeir neytendur sem eiga umrædda vöru og eru viðkvæmir fyrir glúteni eru beðnir um neyta hennar ekki og farga.