Kaffibollar óskast fyrir kaffihúsið GÆS

Velferð Mannlíf

""

Þann 1. júní n.k. opnar kaffihúsið GÆS í Tjarnarbíói. Að kaffihúsinu standa nemendur í starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun í Háskóla Íslands. Hugmyndin að GÆS varð til hjá nemendunum í diplómanáminu sem  vill með þessu framtaki leggja sitt að mörkum til að auka fjölbreytni í atvinnutækifærum  fatlaðs fólks.

Ekki er hægt að bjóða upp á kaffi án þess að hafa nauðsynlegan borðbúnað og leitar hópurinn nú til almennings um að leggja þeim til kaffibolla. Þau taka á móti bollum af öllum stærðum og gerðum frá þeim sem vilja hjálpa til við að koma kaffihúsinu af stað. Móttaka kaffibolla verður í Ráðhúsi Reykjavíkur milli kl. 14 – 16, á uppstigningardag, fimmtudaginn 9. maí. Borgarbúar eru hvattir til að taka þátt og leggja þeim lið.

Þau sem koma til með að starfa á GÆS eru fimm talsins en þau hafa unnið áfram með þróun hugmyndarinnar og undirbúið stofnun kaffihússins í námi sínu í Háskólanum.  Nemendur í kaffihúsahóp eru: Gísli Björnsson, Lára Steinarsdóttir, María Þ. Hreiðarsdóttir, Steinunn Ása Þorvaldsdóttir og Unnur Jónsdóttir. Leiðbeinandi verkefnisins er Ágústa Björnsdóttir verkefnisstjóri diplómanámsins.

Kaffihúsið verður staðsett í Tjarnarbíói við Reykjavíkurtjörn í sumar með möguleika á áframhaldi ef vel gengur. Verkefnið byggir á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og á félagslegum skilningi á fötlun. Lögð verður áhersla á að hæfileikar hvers og eins fái að njóta sín og manngerðum hindrunum í samfélaginu rutt úr vegi .

Nafnið á kaffihúsinu er GÆS, samanstendur af einkunnarorðum hópsins sem eru GET- ÆTLA-SKAL, en ekki síður er það vísun í umhverfi kaffihússins og fuglalífið við tjörnina. GÆS verður staður sem allir geta heimsótt, staður tækifæra, hugmynda, huggulegheita, umburðarlyndis og samfélags þar sem gert er ráð fyrir öllum.
 
Meðfylgjandi er slóð á myndband sem hópurinn hefur gert um kaffibollasöfnunina.  http://www.youtube.com/watch?v=vSUmKhmnqUM&feature=youtu.be

Kaffihúsið GÆS er einnig með Facebooksíðu