Jafnréttisskóli í Reykjavík

Velferð Skóli og frístund

""

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í dag að setja á stofn Jafnréttisskóla Reykjavíkur að fyrirmynd Náttúruskólans sem nú hefur verið starfræktur í 6 ár. Skólinn á að hefja starfsemi í haust.

Í greinargerð með tillögunni sem vinstrigrænir lögðu fram segir m.a. að skólinn hefði það hlutverk að skapa vettvang fyrir heilsteypt jafnréttisstarf í skólum í anda mannréttindastefnu borgarinnar og nýrra Aðalnámskráa. Jafnframt yrði hlutverk skólans að efla tengsl meðal kennara og styrkja þá í jafnréttisfræðslu.

Gert er ráð fyrir að ráðinn verði sérfræðingur á sviði uppeldis- og kynjafræða til skóla- og frístundasviðs og myndi hann vinna að því að byggja upp þekkingar- og upplýsingamiðstöð og veita aðstoð og ráðgjöf við skipulagningu jafnréttismenntunar. Jafnréttisskólinn byði jafnframt upp á fræðslu í skólunum, bæði fyrir börn og kennara, líkt og Náttúruskólinn hefur gert á sviði umhverfismenntunar.