Borgarstjórn þakkar úttektarnefnd borgarstjórnar

Velferð

""

 

Skýrsla úttektarnefndar borgarstjórnar á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar var rædd á fundi borgarstjórnar í gær. Borgarstjórn sendi af því tilefni frá sér sameiginlega bókun.

Borgarstjórn vill þakka úttektarnefnd borgarstjórnar um stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar fyrir ítarlega og vandaða úttekt. Líkt og segir í niðurstöðum nefndarinnar er það mat hennar „að stjórnskipun og stjórnsýslu hjá Reykjavíkurborg sé í meginatriðum fyrir komið með ásættanlegum hætti en á henni eru þó ýmsir hnökrar, ekki síst hvað varðar framkvæmd og eftirfylgni á mörgum sviðum.“

Borgarstjórn telur að fjölmargar ábendingar og tillögur nefndarinnar kalli á ítarlega umfjöllun á vettvangi borgarstjórnar og stjórnkerfi borgarinnar og felur borgarstjórn borgarráði ábyrgð á að starfi nefndarinnar verði fylgt eftir á viðeigandi vettvangi, s.s. í ráðum og nefndum borgarinnar, stjórnsýslu hennar og svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins. Að umfjöllun lokinni komi skýrslan aftur til umræðu í borgarstjórn.

Úttektarnefndin var skipuð Sigurði Þórðarsyni, löggiltum endurskoðanda, en hann var formaður nefndarinnar, Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur, skipulagsfræðingi og Sesselju Árnadóttur, lögfræðingi. Starfsmaður nefndarinnar var Vigdís Þóra Sigfúsdóttir, lögfræðingur. Að auki starfaði Sveinn Sigurðsson með nefndinni. Úttektarnefndin fól Vilhjálmi Árnasyni prófessor við Háskóla Íslands, og Henry Alexander Henryssyni, starfsmanni Siðfræðistofnunar Háskólans að vinna að gerð 10. kafla um siðferði og starfshætti stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.

Skýrsla úttektarnefndar