Öskudagsráðstefnan 2012

Grunnskólinn – Hvaðan kom hann? – Hvert er hann að fara? – Hvað er hann? Þetta er yfirskrift Öskudagsráðstefnu menntayfirvalda í Reykjavík, sem haldin verður á Hilton Reykjavík Nordica miðvikudaginn 22. febrúar kl. 13.00 - 16.45. 

Fjórir fyrirlestrar voru haldnir á ráðstefnunni. Sérfræðingar frá Menntavísindasviði HÍ og mennta- og menningarmálaráðuneytinu sögðu frá niðurstöðum nýrrar rannsóknar og stefnumörkun í menntamálum. Tveir erlendir sérfræðingar, annar á vegum Miðstöðvar menntarannsókna og nýsköpunar hjá OECD og hinn á vegum Mckinsey-stofnunarinnar fjölluðu um niðurstöður alþjóðlegra rannsókna á grunnskólastarfi og um stöðu grunnskólans í samfélagi framtíðarinnar.

Meðal annars var farið í stöðu og starfshætti grunnskólans, þarfir framtíðarinnar fyrir nýsköpun og fjölbreytta þekkingu, þróun nýrra leiða við mat á árangri, hvaða umbótaaðgerðir skili mestum árangri og mótun menntastefnu í ljósi samfélagsþróunar.

Að hvaða marki eru nemendur „fullgildir og virkir þátttakendur í skólastarfinu“?
Dr. Ingvar Sigurgeirsson prófessor við kennaradeild, Menntavísindasviði Háskóla Íslands og Ingibjörg Kaldalóns verkefnisstjóri, Menntvísindastofnun HÍ.
Í stefnumörkun Reykjavíkurborgar segir m.a.: „Einstaklingsmiðað nám og markviss samvinna tryggir að komið sé til móts við þarfir, áhuga og námsstíl nemenda. Frumkvæði og þekkingarleit einkenna allt skólastarfið ... Nemendur setja sér markmið í samvinnu við kennara og foreldra og eru ábyrgir fyrir eigin námi. Hæfileikar hvers og eins fá notið sín og námstilboð eru fjölbreytt í bóklegum og verklegum greinum, menningu og listum … Nemendur eru fullgildir og virkir þátttakendur í skólastarfinu …”

Í þessum fyrirlestri var leitast við að ræða þessa stefnumörkun með hliðsjón af niðurstöðum úr rannsókninni Starfshættir í grunnskólum 2009–2011, sem náði til tuttugu grunnskóla, þar af sextán í Reykjavík. Byggt á umfangsmiklum spurningakönnunum, vettvangsathugunum og viðtölum. Sjá glærur úr fyrirlestri Ingvars og Ingibjargar

Educating for innovation-driven societies: what pedagogies, curricula and assessments?
Dr. Stéphan Vincent-Lancrin, sérfræðingur og verkefnastjóri hjá OECD - miðstöð menntarannsókna og nýsköpunar
Í þessum fyrirlestri var fjallað um hvaða færni og námsgreinar eigi að vera í forgrunni í samfélagi sem leggur áherslu á nýsköpun. 
Dr. Stéphan ræddi nauðsyn þess að menntastefna og kröfur um færni og nýsköpun á 21. öldinni færu saman, en af því hafa menn vaxandi áhyggjur í OECD-ríkjunum. Meginröksemd hans var sú að OECD- ríkin verði að efla og styrkja þekkingu og færni á mörgum sviðum til að geta staðið undir markmiðum um nýsköpun og velferð. Hlúa þurfi að fagþekkingu, frumkvæði og sköpun, svo og samskipta- og félagsfærni.
Sjá glærur úr fyrirlestri Dr. Stephan Vincent-Lancrin.
 
How can we improve student achievement in Scandinavia?
Peter Gerlach, ráðgjafi við Mckinsey-stofnunina í Stokkhólmi.
Norðurlöndin eiga margt sameiginlegt í menntamálum og námsárangri. Í rannsókn sem náði til 600 námsþátta hefur McKinsey & Company leitast við að finna út hvað þeir skólar eiga sameiginlegt sem auka mest og skjótast hæfni nemenda á alþjóðlegum mælikvarða. Getur sú reynsla nýst Íslandi og öðrum norrænum ríkjum í því að gera gott menntakerfi enn betra? Sjá glærur úr fyrirlestri Peter Gerlach.

Ný íslensk menntastefna og mótun hennar í alþjóðlegu samhengi
Sigurjón Mýrdal, deildarstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Fjallar var um stefnu sem mörkuð var í menntalöggjöfinni 2008 og útfærslu hennar í nýjum aðalnámskrám 2011. Mótun þessarar stefnu fer fram í stofnunum skólakerfisins, ekki síst í einstökum skólum og kennslustofum. Menntastefnan var mörkuð í ákveðnu þjóðfélagsástandi fyrir og eftir banakhrunið 2008. Við mótun hennar á næstu árum er eðlilegt að menn líti til samfélagsþróunarinnar, en ekki síður til reynslu annarra þjóða af þróunarstarfi í skólum og breytingum í fræðunum. Sjá glærur Sigurjóns Mýrdal.

Ráðstefnustjóri
Dr. Anna Kristín Sigurðardóttir, lektor í skólaþróun og deildarforseti kennaradeildar Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

Sjá auglýsingu um ráðstefnuna.