Hvert stefnir grunnskólinn?

Reykvískir kennarar ætla að fjölmenna á ráðstefnu á öskudaginn 22. febrúar þar sem leitað verður svara við því hvert grunnskólinn stefni og hvernig hann standi sig í samanburði við önnur lönd. Öskudagsráðstefnan er að þessu sinni skipulögð með tilliti til þess að verið er að innleiða nýja aðalnámskrá. Athyglinni verður beint að grunnskólanum í dag einkennum hans og þróun í alþjóðlegu samhengi. Farið verður í stöðu og starfshætti grunnskólans, þarfir framtíðarsamfélagsins fyrir nýsköpun og fjölbreytta þekkingu, nýjar leiðir til kennslu og námsmats og mótun menntastefnu. Innlendir og erlendir fræðimenn með mikla yfirsýn yfir skólastarf í heiminum gera grein fyrir því sem best er gert á þessu sviði.

Vel á sjöunda hundrað kennarar eru skráðir til leiks en yfirskrift ráðstefnunnar er Grunnskólinn – Hvaðan kom hann? – Hvert er hann að fara? – Hvað er hann?

Fjórir fyrirlestrar verða haldnir á ráðstefnunni:
Dr. Stéphan Vincent-Lancrin frá Miðstöð menntarannsókna og nýsköpunar hjá OECD mun fjalla um hvaða færni og námsgreinar eiga að vera í forgrunni í samfélagi sem leggur áherslu á nýsköpun.

Peter Gerlach, ráðgjafi Mckinsey-stofnunarinnar í Stokkhólmi, mun fjalla um niðurstöður alþjóðlegra rannsókna á grunnskólastarfi og um stöðu grunnskólans í framtíðarsamfélaginu.

Dr. Ingvar Sigurgeirsson prófessor og Ingibjörg Kaldal verkefnastjóri við Háskóla Íslands munu segja frá niðurstöðum nýrrar viðamikillar rannsóknar um starfshætti í grunnskólunum og nefnist fyrirlestur þeirra Að hvaða marki eru nemendur fullgildir og virkir þátttakendur í skólastarfinu?

Sigurjón Mýrdal, deildarstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, fjallar um nýja aðalnámskrá, íslenska menntastefnu og mótun hennar í alþjóðlegu samhengi.

Ráðstefnustjóri er Dr. Anna Kristín Sigurðardóttir, lektor í skólaþróun og deildarforseti Kennaradeildar Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

Öskudagsráðstefnan, sem er stærsti fagvettvangur íslenskra grunnskólakennara, er á vegum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar í samstarfi við Kennarafélag Reykjavíkur og Félag skólastjórnenda í Reykjavík. Hún verður á Hilton Reykjavík Nordica miðvikudaginn 22. febrúar og hefst kl. 13:00.

Sjá dagskrá