Fjölskyldan skemmtir sér í vetrarfríinu

Dagana 23. og 24. febrúar verður vetrarfrí í flestum grunnskólum Reykjavíkur. Frístundamiðstöðvar, félagsmiðstöðvar og sundlaugar Reykjavíkurborgar bjóða upp á fjölmarga viðburði í vetrarfríinu.

Í Hlöðunni við frístundamiðstöðina Gufunesbæ í Grafarvogi verður efnt til skákmóts fimmtudaginn 23. febrúar og Hlöðubingós föstudaginn 24. febrúar. Báðir viðburðir hefjast kl. 12:30 og eru ætlaðir fólki á öllum aldri. Sjá nánar á heimasíðunni www.gufunes.is.

Í miðborginni efnir frístundamiðstöðin Kampur til fjölskylduhátíðar við Barónsstíg fimmtudaginn 23. febrúar undir yfirskriftinni Leikstræti –lokað fyrir umferð opnað fyrir leik. Kampsráð unglinga í 8. - 10. bekkjum Austurbæjar-, Háteigs- og Hlíðaskóla kemur að skipulagi Leikstrætis og tekur þátt í umsjón viðburðarins sem hefst kl. 14:00. Dótakassinn verður opinn, flugdrekar settir á loft, gatan skreytt með krít og tómbólur haldnar til styrktar UNICEF. Þá býður Sundhöllin gestum Leikstrætis frítt í sund frá kl 14:00 - 16:00.
Sjá nánar á heimasíðunni www.kampur.is

Í Vesturbæjarlaug verður efnt til fjölskylduleikja föstudaginn 24. febrúar kl. 14:30 - 16:30. Þetta eru leikirnir Wipeout og Minute to win it sem hafa verið vinsælir í sjónvarpsþáttum. Félagsmiðstöðin Frosti býður upp á vöfflur meðan birgðir endast. Að auki stendur frístundamiðstöðin Frostaskjól fyrir ýmsum viðburðum fyrir unglinga í vetrarfríinu og öskudagsballi fyrir 5. - 7. bekk fimmtudaginn 23. febrúar kl. 16:30 - 19:30.
Sjá nánar á heimsíðunni www.frostaskjol.is.

Fimmtudaginn 23.febrúar efnir Frístundamiðstöðin Kringlumýri til sundleikja fyrir alla fjölskylduna í Laugardalslaug. Dagskráin hefst kl 12:30 með ýmsum leikjum, farið verið í tímatöku í rennibrautinni, sundknattleik og fleira. Starfsmenn úr félagsmiðstöðvum Kringlumýrar munu stjórna dagskránni. Þá verða öskudagsskemmtanir í Bústöðum og  Tónabæ miðvikudaginn 22. febrúar. Nánari upplýsingar um opnunartíma félagsmiðstöðvanna má finna á heimasíðunni www.kringlumyri.is

Bláfjöllin skarta nú sínu fegursta. Þar er nægur snjór og lyftur opnar ef veður leyfir. Því væri alveg tilvalið að skella sér á skíði í vetrarfríinu.
Sjá nánar á heimasíðunni www.skidasvaedi.is.

Benda má á skemmtilega afþreyingarkosti í hverfum borgarinnar á ,,Ævintýri á heimaslóðum þar sem búið er að kortleggja hverfin og safna saman fjölmörgum hugmyndum og tillögum að því sem hægt er að gera, s.s. á útivistarsvæðum og söfnum.

Þá verða sundlaugar borgarinnar opnar eins og venjulega þar sem hægt er að eiga gæðastundir.