Bolaöldur taka við af Hólmsheiði

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa gert samning við Bolaöldur ehf. til eins árs um móttöku á jarðefnum til landmótunar í Bolaöldum í hlíðum Vífilsfells.  Þar er námusvæði og með móttöku á jarðefnum er verið að endurheimta land í eldri námum.

Í framhaldi af hinu nýja fyrirkomulagi hefur  Reykjavíkurborg hætt reglubundinni efnismóttöku á Hólmsheiði, en þar hefur verið tekið á móti jarðvegi frá árinu 2001. 

Í Bolaöldum er eingöngu heimilt að losa endurnýtanlegt, óvirkt jarðefni s.s. mold, möl og grjót. Einnig má losa steinsteypubrot sem búið er að klippa af öll útistandandi járn og hreinsa af öðrum efnum s.s. einangrun, pappa og klæðningu.  Ekki er heimilt að losa lífrænan úrgang eins og húsdýraskít og landbúnaðarhrat, eins og það er orðað í starfsleyfi sem Heilbrigðiseftirlit Suðurlands gefur út, en Bolaöldur eru í landi Ölfuss. 

Móttaka jarðefna er opin á virkum dögum: Mánudaga - fimmtudaga kl. 8.00 - 12.00 og 12.30 - 17.00, og á föstudögum kl. 8.00 - 12.00 og 12.30 - 16.00.

Nánari upplýsingarBolaöldur - móttaka jarðvegs.