Of Monsters and Men á ókeypis tónleikum

Borgarráð hefur samþykkt að styrkja tónleika hljómsveitarinnar Of Monsters and Men sem haldnir verða í Hljómskálagarðinum við Tjörnina í Reykjavík 7. júlí næstkomandi.  Styrkurinn nemur 250.000 krónum og felst í undirbúningi fyrir tónleikana og þrifum eftir þá. Tónleikarnir eru haldnir í samstarfi hljómsveitarinnar Of Monsters and Men við útvarpsstöðina Bylgjuna og eru allir velkomnir.

Hljómsveitin hefur slegið rækilega í gegn með plötu sinni My Head is an Animal, sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem því er spáð að lagið Little Talks verði eitt af vinsælustu lögum sumarsins.

Þess má geta að Of Monsters and Men unnu Músíktilraunir 2010 en Hitt húsið sem rekið er af Reykjavíkurborg stendur fyrir þeim. 

Hljómsveitin var einnig í listhópi á vegum Hins hússins  í fyrrasumar og fékk þar tækifæri til að þróa list sína um tveggja mánaða skeið.  Þau Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, Ragnar Þórhallsson, Árni Guðjónsson spiluðu m.a. á götum og torgum í Reykjavík, t.d. á viðburðum Hins hússins sem nefnast Föstudags fiðrildi en nú spila þau fyrir fullum húsum alls staðar í heiminum og platan þeirra selst eins og heitar lummur.

Í dag er hljómsveitin skipuð þeim Nönnu Bryndísi Hilmarsdóttir, Ragnari Þórhallssyni, Árna Guðjónssyni, Kristjáni Páli Kristjánssyni, Arnari Rósenkranz Hilmarssyni og Ragnhildi Gunnarsdóttur.

Tónleikarnir verða vímulaus fjölskylduskemmtun og hefjast kl. 18 að kvöldi 7. júli og lýkur kl. 22.