Mikil stemming við Ægissíðuna

Það var mikið um að vera við Ægissíðuna í Vesturbænum þegar Reykjavíkurmaraþonið fór fram sl. laugardag, en það hefur verið haldið síðan 1984. Veðrið lék við keppendur, en það var eins og best verður á kosið. Það er að sjálfsögðu mikið ánægjuefni að sjá alla þessa hlaupara taka þátt, en það er ekki síður gaman fyrir alla þá sem taka þátt að sjá allan þann stuðning sem er víðsvegar á leiðinni að endamarki. Þegar hlauparar finna þann stuðning sem er á leiðinni er engan veginn hægt að hætta að hlaupa, hvatningin er svo mikil. Ægissíðan er sá staður þar sem fólk safnast saman og styður sitt fólk og hvetur til mikilla dáða. Þarna safnast líka saman aðilar sem standa fyrir söfnun fyrir líknarfélög og einstaklinga og safnast árlega miklir fjármunir á þessum degi til góðra málefna. Reykjavíkurmaraþonið er orðinn ákveðinn þáttur í lífi fólks og sumir æfa sérstaklega allt árið fyrir þetta skemmtilega hlaup. Vesturbæingar sem og allir Íslendingar geta verið stoltir af degi sem þessum og eiga skipuleggjendur skilið að fá mikið hrós fyrir vel unnin störf undan farin ár.