Skálafell, nýtt kaffihús á Hrafnistu tekið í notkun

Jón Gnarr borgarstjóri tók þátt í vígslu á nýju kaffihúsi á dvalarheimilinu Hrafnistu í gær. Fjöldi gesta var viðstaddur vígsluna, íbúar, aðstandendur og starfsfólk enda margir spenntir að sjá breytingarnar á hinum 55 ára gamla borðsal. Með breytingunni er búið að skapa hlýlegt bókakaffis-umhverfi í sambland við hefðbundinn matsal sem þjónar bæði heimilisfólki, starfsfólki og gestum Hrafnistu. Á nýja kaffihúsinu, sem opið verður til kl 19.00 á kvöldin, verður hægt að kaupa kaffidrykki og meðlæti eins og pönnukökur með rjóma og súkkulaðiköku. Heimilismönnum gefst þar tækifæri til að sækja kaffihús og bjóða vinum og ættingjum með sér. Líkt og á flestum kaffihúsum landsins er mögulegt að gestir geti fengið sér léttvín eða bjór kjósi þeir svo.

Borgarstjóri óskaði forsvarsmönnum og íbúum til hamingju með nýja kaffihúsið og sagði að borgarráð hefði samþykkt tillöguna um vínveitingaleyfið og baðst um leið afsökunar á óþægindunum sem töfin hefði valdið. Guðmundur Hallvarðsson, stjórnarformaður sjómannadagsráðs, sagði kaffihúsið koma til með að bæta þjónustuna við íbúa og aðstandendur þeirra og tók við vínveitingaleyfinu úr hendi Péturs Magnússonar, forstjóra Hrafnistu.

Því næst afhjúpaði borgarstjóri skjöld með nýju nafni kaffihússins, Skálafell, og því næst klipptu þeir á borða og gengu inn í nýja kaffihúsið. Gestum var boðið upp á rjómapönnukökur og flatkökur með hangikjöti og hljómsveitin Mohito spilaði nokkur lög.