Læsissmiðju í dalnum lauk með glæsibrag

Undanfarnar sjö vikur hafa börnin í Dalskóla tekið þátt í viðamikilli smiðju undir yfirskriftinni Læsi í dalnum. Dalskóli fékk styrk úr þróunarsjóði skóla- og frístundaráðs til að gera smiðjuna sem best úr garði og nýta árangurinn til að byggja upp heildstætt móðurmáls- og lestrarnám.

Börnin hafa m.a. verið að setja saman myndasögur, unnið með bókmenntir, bókagerð, leikræna tjáningu og orðtök- og málshætti. Börn í frístund fóru á rölt um hverfið og bönkuðu upp á hjá fólki og fengu að lesa fyrir það. Þá fengu öll Dalskólabörn gæðatexta með sér heim til að lesa fyrir eða með foreldrum sínum. Allir voru með bók í hönd öllum stundum.

Eins og áður voru börnin dugleg að fara í heimsóknir í sínu nærumhverfi. Börn á Huldu- og Trölladal og 5 og 6 ára börn fóru í heimsókn á bókasafn og tóku þátt í verkefni um kvæðaarfinn í Gerðubergi. Börn í 3.-4. bekk fóru á leiksýningu í Norræna húsinu og börn í 3.-5. bekk lásu og sungufyrir gesti við afhendingu íslenskuverðlauna skóla- og frístundaráðs í Hörpunni.

Í skólann komu líka margir góðir gestir í tengslum við smiðjuvinnuna. Söngvaskáldin Svavar Knútur og Aðalsteinn Ásberg komu og fjölluðu um Stein Steinarr, börnin í 1. og 2. bekk fengu hjálparbeiðni frá Kristínu Helgu Gunnarsdóttur rithöfundi en hún hafði týnt handriti að bók sem átti að koma út um jólin. Börnin fundu handritið og skiluðu því í prentsmiðju. Kristín Helga kom svo síðar og las upp úrhandritinu fyrir börnin. Berglind sögukona kom og sagði börnum á leikskólaaldri sögur. Tryggvi Gunnarsson leikari hitti börnin á Álfabjörgum og sagði þeim sögu. Ásrún Kristjánsdóttir hitti börn í 3.-4. bekk og fjallaði um tilurð sögunnar Áslaug í hörpunni og sagði frá þróun myndverka í henni en faðir hennar, Kristján Friðriksson samdi söguna.

Að vanda lauk smiðjunum með sýningu. Börn á grunnskólaaldri buðu foreldrum og nánustu ættingjum að koma í skólann föstudaginn 7. desember. Þar sýndu þau þeim afrakstur vinnu sinnar með sýningu á sal auk þess sem gríðarlega stór bók var sýnd. Börn á leikskólaaldri buðu foreldrum á sín smiðjulok fimmtudaginn 13. desember og fluttu leikrit og sungu fyrir gesti. Að smiðjunni lokinni hélt foreldrafélagið sína árlegu jólaskemmtun.