Hverfisráð Hlíða - Fundur nr. 68

Hverfisráð Hlíða

Ár 2010, mánudaginn 15. nóvember var haldinn 68. fundur Hverfisráðs Hlíða. Fundurinn var haldinn í Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og hófst kl. 17.00. Viðstödd voru Hilmar Sigurðsson formaður og Linda Ósk Sigurðardóttir. Geir Sveinsson, og Sigurður Eggertsson boðuðu forföll. Í stað Geirs sat fundinn Jóhann Birgisson. Ekki náðist í varamann fyrir Sigurð. Garðar Mýrdal boðaði forföll og í hans stað sat Vésteinn Valgarðsson fundinn sem áheyrnarfulltrúi VG. Einnig sat fundinn Steinunn Þórhallsdóttir formaður Íbúasamtaka 3. hverfis, Hlíðar, Holt og Norðurmýri, Sigtryggur Jónsson, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða og Berglind Leifsdóttir þjónustustjóri, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Formaður fór yfir stöðu þeirra mála, sem hverfisráðið er að vinna að. Rætt um frístundaheimili við Háteigsskóla og um hámarkshraða á Lönguhlíð og Flókagötu. Samþykkt að óska eftir því við Umhverfis- og samgöngusvið að áður samþykkt lækkun hámarkshraða í 40 km verði hrint í framkvæmd. Rætt var um fjölmiðlafrétt um umferðarhraða á Hringbraut og Miklubraut.
Hverfisráðið bókaði:
Hverfisráð Hlíða styður eindregið lækkun umferðarhraða á Miklubraut og Hringbraut og leggst gegn hugmyndum um vegrið og aðgerðir sem leiða til aukins umferðarhraða í gegnum íbúahverfi. Þess í stað leggur hverfisráðið til að umferðarhraði þessara gatna verði lækkaður niður í 40 km. í þeim tilgangi að draga úr umferðarþunga og slysum. Jafnframt bendir hverfisráðið á að eðlilegra væri að bæta almenningssamgöngur í stað þess að skera niður fjármagn til þeirra.
Framkvæmdastjóra falið að senda þessa bókun til viðeigandi aðila og jafnframt að senda fyrirspurn til Skipulags- og byggingarsviðs um stöðu mála vegna opins húsagrunns við Einholt.
Samþykkt að fela framkvæmdastjóra að fá arkitektateymi til að kynna hugmyndir varðandi umferð og annað í tengslum við fyrirhugaða byggingu nýs landspítala.

2. Framkvæmdastjóra falið að óska eftir upplýsingum frá Umhverfis- og samgöngusviði varðandi fyrirhugaðar viðbyggingar við Skaftahlíð 24 og að hverfisráð fái erindið til umsagnar.

3. Umræður um endurbætur á göngustíg á Klambratúni. Formaður hefur sent erindi frá Guðjóni Inga Eggertssyni frá 1. nóv. sl. til Umhverfis- og samgöngusviðs. Hverfisráð tekur undir sjónarmið Guðjóns.

4. Rætt um opinn íbúafund, sem haldinn verður í samstarfi við lögregluna þann 22. nóvember nk. kl. 16:00 – 17:30

5. Formaður gerði grein fyrir fundi sem haldinn var með skólastjórn MH vegna reykinga nemenda skólans við lóðir í Hamrahlíð. Hilmar Sigurðsson og Garðar Mýrdal fóru fyrir hönd Hverfisráðs Hlíða á fund við skólastjórn MH og nemendafélags, fundurinn var jákvæður og gekk vel.

6. Ákveðið að fresta opnum íbúafundi, sem hverfisráð ætlaði að halda um frístundamál í hverfinu.

7. Formaður Íbúasamtaka 3. hverfis ræddi um gangstétt ofl. er varðar Flókagötu og boðaði erindi um málið á desemberfundi hverfisráðsins. Hverfisráð fagnar áhuga og vinnu íbúa og lýsir yfir áhyggjum af umferðahraða við Flókagötu og hvetur Umhverfis- og samgögnusvið til viðeigandi aðgerða nú þegar.

8. Rætt um mikilvægi þess að hverfisráð fái til umsagnar þann hluta fjárhagsáætlunar er snýr að viðkomandi hverfi í aðdraganda að gerð hennar.

9. Samþykkt, að gefnu tilefni, að fela framkvæmdastjóra að óska eftir því við heilbreigðisnefnd að bregðast með viðeigandi hætti við lausagöngu hunda á Klambratúni og í Hlíðum.

Fundi slitið kl. 18.22

Hilmar Sigurðsson,
Linda Ósk Sigurðardóttir, Jóhann Birgisson.