Stjórn Strætó - Fundur nr. 259

Stjórn Strætó

STJÓRN STRÆTÓ BS.

Ár 2016, föstudaginn 3. febrúar 2017 var haldinn 259. fundur í stjórn Strætó bs. í Mjódd og hófst hann kl. 11.05. Mætt voru Heiða Björg Hilmisdóttir stjórnarformaður, Bryndís Haraldsdóttir, Kristinn Andersen, Gunnar Valur Gíslason, Sverrir Óskarsson og Sigrún Edda Jónsdóttir. Fundinn sat einnig Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð.

Tekið fyrir:

1. Leiðarkerfisbreytingar

2. Fyrir fundinum lágu minnisblöð frá Strætó um leiðarkerfisbreytingar í Kópavogi, leið 21, leið 6 og 31, akstur á Hverfisgötu og nætur- og kvöldakstur sem hafa verið í umræðu hjá stjórn Strætó og inni í aðildarsveitarfélögunum.

3. Stjórn leggur áherslu á að ef framkvæma á leiðarkerfisbreytingar næsta vor þurfa allar breytingar að liggja fyrir samþykktar af viðkomandi sveitarfélögum á næsta stjórnarfundi, þann 17. febrúar nk. Jafnframt fól stjórn framkvæmdastjóra að taka saman minnisblað til aðildarsveitarfélaganna með upplýsingum um breytingarnar.

4. Rekstrarúttekt, staðan

Umræða í kjölfar eigendafundar Strætó bs. 23. janúar sl. þar sem stjórn og handhafar eigendavalds fóru sameiginlega yfir niðurstöður úr greiningarvinnu Framsækni ehf, og ákvörðun var tekin um vinnu og vinnulag stjórnar og framkvæmdastjóra vegna innleiðingar á fyrirliggjandi tillögum um mögulega hagræðingu og lækkun kostnaðar í rekstri byggðasamlagsins.

Framkvæmdastjóri fór yfir samantekt aðgerða sem framkvæmdar hafa verið frá byrjun árs 2016 og þann árangur sem náðst hefur í rekstri Strætó síðan þá.

5. Húsnæðismál

Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar, mætti til fundar við stjórn til viðræðna um húsnæðismál. Farið var yfir húsnæðismál Strætó í Mjódd og Hesthálsi, en húsnæði á Hesthálsi er leigt af Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg er að leita að húsnæði fyrir starfsemi þjónustumiðstöðvar í Breiðholti og gæti húsnæði Strætó í Mjódd komið til greina undir þá starfsemi.   

6. Stjórn fól framkvæmdastjóra að vinna að málinu fyrir hönd fyrirtækisins í samræmi við umræður á fundinum.

7. Vetnisumsókn

Fyrir fundinum lágu drög að umsókn til ESB um að Strætó verði þátttakandi í prófunum á vetnisstrætisvögnum.  Umræður urðu um málið og var framkvæmdastjóra falið að tilkynna að stjórn Strætó er jákvæð fyrir þátttöku í tilraun á vetnisvögnum en getur þó ekki á neinn hátt skuldbundið Strætó bs. fjárhagslega í þessu verkefni.

8. Niðurstaða vagnakaupaútboðs

Framhald umræðu frá síðasta fundi. Guðmundur Siemsen, lögmaður frá Advel, mætti til fundar við stjórn og reifaði málið í framhaldi af ályktun síðasta stjórnarfundar.

Þann 14. desember 2016 var haldin opnunarfundur vegna endurnýjunar strætisvagna, EES samningskaup nr. 13002, Örútboð nr. III.  Tilboð bárust frá eftirtöldum þátttakendum:

• Yutong Eurobus ehf. (YUTONG)

• Hópbifreiðar Kynnisferða ehf. (VDL)

• BL ehf. (IVECO)

• Klettur sala og þjónusta ehf.

Valnefnd hefur yfirfarið og metið tilboð í samræmi við kafla 0.3 „Meðferð og mat á tilboðum“ í örútboðsgögnum nr. III, dags. í nóvember 2016.

Valnefnd skipa: Ásgeir Ásgeirsson, Eyþóra Geirsdóttir, Hafliði Richard Jónsson og Ingvar Hjaltalín Jóhannesson.

Eftirfarandi er niðurstaða eftir yfirferð:

Bjóðandi  Líft. kostn. Líft. kostn. Stigagjöf

   (70%) (70%) heild

   Opnunarfundur Leiðrétt

Yutong Eurobus ehf. Tilb. 1 87.621.153 85.560.535 91,95

Hópbifreiðar Kynnisferða ehf. Tilb. 1 94.867.981 94.867.981 78,89

Hópbifreiðar Kynnisferða ehf. Tilb. 2 152.410.420 136.520.900 63,64

BL ehf. Tilb. 1 85.501.389 85.501.389 87,60

Klettur sala og þjónusta ehf. Tilb. 1 103.950.949 108.324.549 85,25

Klettur sala og þjónusta ehf. Tilb. 2 89.018.652 Ógilt tilboð -

Tilboð frá Yutong Eurobus ehf. fékk flest stig, eða samtals 91,95 stig af 100 mögulegum. Boðið kaupverð Yutong Eurobus ehf. fyrir einn strætisvagn er kr. 59.982.300,-.

Með vísan til greinar 0.3 „Meðferð og mat á tilboðum“ í örútboðsgögnum nr. III, dags. í nóvember 2016, leggur valnefnd til við stjórn Strætó bs. að taka tilboði Yutong Eurobus ehf. í strætisvagna, þar sem það tilboð frá Yutong Eurobus ehf. hlaut hæstu einkunn við mat á tilboðum sbr. grein 0.3.2 í fyrrgreindum örútboðsgögnum.

Stjórn samþykkir tillögu valnefndar.

Bent er á að 10 dagar munu líða frá því ákvörðun þessi er tilkynnt bjóðendum þar til tilboð frá Yutong Eurobus ehf. telst endanlega samþykkt.  Að þeim tíma liðnum verður önnur tilkynning send til allra rammasamningshafa þar sem fram kemur að ofangreind ákvörðun hafi verið endanlega samþykkt.

Í kjölfarið mun framkvæmdastjóri ganga til samninga við Yutong Eurobus ehf., sbr. samþykkt stjórnar

Fleira var ekki tekið fyrir.

Fundi slitið kl. 13.20.

Heiða Björg Hilmisdóttir

Sigrún Edda Jónsdóttir Bryndís Haraldsdóttir

Gunnar Valur Gíslason Kristinn Anderssen

Sverrir Óskarsson